Gunnar Már - myndadiskur og DVD

Gubbi sendi okkur þessa færslu:

Keypti tvo diska af Gunnari Má. Annar með ríflega 500 myndum frá öllum afmælunum okkar og hinn er DVD diskur fá '89 afmælinu í Garðinum.

Ligg hér í krampa og nettu áfalli yfir danstöktunum, tískunni og 23 ára "baby-lookinu" á þessum krakkagrislingum. Stelpurnar allar í pilsum og með slaufu í hárinu og drengirnir með bindi og í hvítum sokkum við "dressin". Þvílík stemming sem hefur verið þarna "How low can you go"!

Síðan virðist eitthvert brandaraþema hafa verið í gangi þarna. Ótrúlegur fjöldi sem að stígur á stokk og segir brandara. Síðan eiga Atli og Nonni Ben góða sveiflu-sýningu þarna. Börnunum mínum finnst ótrúlegt að sjá taktana og þetta fullorðna fólk geti látið svona.

Geggjað !

Glæsilegt hjá Gunnari Má að vera búinn að koma þessu á diska. Ég veit að hann er til í að selja þetta fyrir lítinn pening ef fólk hefur áhuga á að nálgast þetta. Gunnar Már Jakobsson, held að farsímanúmerið hans sé 663 1505 eða 863 5030.


Aftur að ári....?

LúBarinn var æði, aldrei lent í því að verða rorrandi fullur og eiga enn helling af peningum þegar ég kom heim.

Diskóið var svo gott að ég er enn hás og með strengi um allann neðri og efri hlutann (Það er varla að ég muni eftir að hafa heyrt "I was made for loving you" með Kiss innan um annað fólk - fæ bara að setja þetta á fóninn einn heima...;-)

Maturinn var akkúrat réttur og meira að segja ábót - Húrra Gunni Palli. Svo var það strategíst að hafa skemmtiatriðin frekar seint, ein eða tvær rauðvín og nokkrir Mojito gerðu það að verkum að í minningunni voru skemmtiatriðin á heimsmælikvarða - sérstaklega fannst mér textameðferð Gunna Odds til fyrirmyndar í laginu góða. Innkoma Gunna Palla verður seint eða alrei toppuð.

Húsnæðið kom vel út - stutt á barinn og enn styttra á klósettið. Eini ókosturinn var kannski stiginn, eftir sem við eldumst eigum við erfiðara um vik að samræma hreyfingarnar - drekka og labba stigann um leið og sms er sent heim "Er á leiðinni...."

Spurning að halda þetta árlega...?;-)

Ég er til...

Sverrir


Já, sæll...!

Við áttum ótrúlega skemmtilegan dag í gær. Byrjuðum í kirkjunni klukkan tvö, næstum 50 manns mættu, ótrúlega góð mæting. Síðan var arkað af stað í Myllubakkaskóla (sumir reyndar latir eða illa klæddir og fóru á bíl Smile ) En í skólanum bættust fleiri í hópinn og tveir „gamlir“ kennarar komu og voru með, þeir Ingólfur og Steinar. Í íþróttahúsinu var farið í leiki undir glimrandi stjórn Guðbrandar. Mikið fjör á liðinu, sumir skelltu andlitinu í vegginn, sumir pompuðu á rassin, sumir fengu boltann í andlitið og svo voru bara aðrir ógeðslega klárir í að sveifla stúlkum í kringum sig, aðrir voru ótrúlega góðir í polka og enn aðrir alveg brilljant í brennó en aðrir stóðu bara alls ekki undir væntingum, en það kom ekki að sök þar sem allir skemmtu sér konunglega. Eftir að fólkið var búið að pústa eftir öll hlaupin var skólinn skoðaður. Fólk minnist þess þegar það var sent í ljós, allir sátu saman á nærbuxunum einum saman og með svört gleraugu og það kom á óvart hvað stofurnar voru eitthvað litlar! Endað var á að skoða smíðastofuna og þar var bara allt eins og áður, ótrúlegt eftir 30 og eitthvað ár. Síðan var farið í Holtaskóla og þar tók Jóhann Geirdal „gamall“ kennari okkar og núverandi skólastjóri á móti okkur. Þar rölti fólk um og rifjaði upp gamlar minningar. Hluti hópsins fór síðan á leiði Brynjars í gamla Kirkjugarðinum við Aðalgötu og kveikt var á kerti til minningar um hann.
Margir fóru í fyrirpartý og áttu góða stund. Fólk mætti á ótrúlega góðum tíma í KK salinn. Fólk byrjaði á að fara á „Lúbarinn“ og ná sér í veitingar. Fólki var gert að draga um sæti við mismikla ánægju, en flestir voru nú bara ánægðir með það, og eftir á að hyggja er nefndin mjög ánægð með að hafa blandað fólki. Borhald fór vel fram og var mikil ánægja með matinn. Spurning á hvaða borði mesta fjörið var, var það í Nýja bíó, Kobbabúð eða Kyndli? Skemmtiatriðin voru svaka fín og ræðumaður kvöldsins stóð sig vel. Fólk var síðan farið að iða í skinnið að komast á dansgólfið og þegar DJinn fór af stað varð bara allt vitlaust á gólfinu. Sumir sýndu gamla takta og aðrir sýndu alveg nýja og vel stílfærða takta. Samkoma fór fram með besta móti, og var henni líkt við góðtemplaraskemmtun af staðarhaldara, svo góð var umgengnin. Óvæntir gestir litu við, hluti af „65 árganginum í Njarðvík, en hann hélt upp á sitt afmæli á Kaffi DUUS. Fólk virtist skemmta sér mjög vel og við gætum trúað að bros sé enn á vörum margra eftir kvöldið. Sumir fóru á bæjarrölt sem var nú eitthvað smá mislukkað, tónlistin ekki alveg að höfði fólks á okkar aldri Tounge Við þökkuð ykkur bara fyrir frábæran dag og vonum að við sjáumst öll aftur eftir fimm ár, jafnhress og jákvæð. Við ítrekum að fólk sendi okkur tölvupóstfangið sitt á netfangið keflavík1965@gmail.com þá er auðveldara fyrir okkur að hafa samband við ykkur, þegar að undirbúningi næsta afmælis verður Cool Cool OG ENDILEGA SENDIÐ OKKUR MYNDIR TIL AÐ SETJA Á SÍÐUNA ...

Kveðja,
NEFNDIN


It's happening! Dagskráin á morgun í grófum dráttum...

Kl. 10 hefst GunnaPallagolfmótið í Sandgerði. Veglegir vinningar í boði fyrir hin ýmsu afrek! Enn hægt að skrá sig hjá Gunna Palla og kvenpeningurinn er sérstaklega hvattur til dáða að láta nú ekki drengina eina um að hitta í holurnar, enda hefur það ekki reynst farsælt gegnum árin. Farsælast er að hafa bæði kynin taki þátt í þessu þótt þess sé alls ekki krafist.

Kl. 14 mætum við stundvíslega í Keflavíkurkirkju. Þar tekur séra Skúli á móti okkur og við minnumst látins fermingabróður, Brynjars Þórs Ingasonar.

Eftir kirkjuferðina verður farið Myllubakkaskóla og nú hefst baráttan fyrir alvöru. Skipt verður í lið, bæði klapplið og keppnislið, í brennó og síðan hefst orrahríðin. Ef einhver kemur með snú snú band verður líka hægt að fara í snú snú, eða parís, eða teygjó eða „hver stal krukkunni úr krúsinni í gær“ eða eitthvað sem ykkur dettur í hug. Whatever, eftir það eða á undan, who cares, verður gamli barnaskólinn okkar skoðaður en þið þurfið þó hvorki að stautast í gegnum Gagn og gaman né Litlu gulu hænuna. Allt verður þetta undir styrkri stjórn Guðbrands Stefánssonar sem stýrir þessu með aga íþróttakennarans.

Eftir heimsóknina og brennómótið göngum við fylktu liði upp í Gaggó, nú Holtaskóli, og þar mun Jóhann Geirdal skólastjóri taka á móti okkur. Það er í lagi að fá sér grænan frostpinna á leiðinni, ef hægt að fá hann ennþá, en hvorki er hægt að fá Spur né Miranda. Þó er hægt að fá sér litla kók og lakkrísrör, eða kókómjólk og snúð! En þetta var útidúr. Allavega, Gubbi mun síðan leiða okkur í gegnum gamla Gaggann okkar sem nú er orðinn heilsetinn grunnskóli. Líkt og í barnaskólanum verða þarna heldur engin verkefni, en þeir sem vilja mega auðvitað rifja upp kvíslgreiningu og diffrun finni þeir hjá sér ríka þörf.

Eftir þessar nostralgíur verður gert hlé á formlegri dagskrá svo þeir sem hrufluðu sig og rifu í brennó eða öðru aktíviteti geti hress sig við og síðan ýmist safnað kröftum fyrir kvöldið eða aukið snúningshraðann í forteitum sem einhver bjóðast.

Kl. 19 opnar síðan KK húsið og borðhaldið hefst stundvíslega kl. 20. Og mæta PRONTO enda kokkurinn þekktur fyrir að vera snar í snúningum og þið viljið ekki missa agnarögn af hinni mögnuðu, stórkostlegu, ofurdagskrá kvöldsins. Hvað fram fer er háleynilegt enda hefð fyrir því að what happens in fermingarafmælunum stays in fermingarafmælum! Þó hefur hvissast út að „Lagið“ fræga muni kannski rifjað upp. Þá hefur einnig heyrst af því að ónefndur skólabróðir okkar, sem margir líka við Bowie, mæti jafnvel með spónhörpu sína og söngrödd. Ýmsar myndir eru til, meira segja hreyfimyndir í lit, sem erfitt er að horfa á í dag blygðunarlaust Blush og þar fram eftir götunum. Þá dregur enginn í efa að ræðusnillingur kvöldsins muni láta gamninn geysa og allt fer þetta fram undir styrkri stjórn fulltrúa Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Getum ekki beðið eftir að sjá ykkur... en verðum að gera það... þangað til að morgun!


Við minnumst Brynjars Þórs

Brynjar ÞórVið minnumst Brynjars Þórs Ingasonar sem lést 27. febrúar 1983 eftir bílslys í Las Vegas, aðeins 18 ára gamall, en hann var fæddur 19. janúar 1965. Slysið varð með þeim hætti að ölvaður ökumaður ók á Brynjar Þór og tvo félaga hans þegar þeir voru rétt komnir út úr kvikmyndahúsi. Brynjar Þór lést af sárum sínum skömmu síðar en félagar hans slösuðust talsvert. Þegar slysið varð hafði Brynjar Þór búið í Bandaríkjunum í tæp tvö ár ásamt móður sinni og fósturföður. Hann var jarðsettur frá Keflavíkurkirkju 12. mars 1983 og hvílir í Keflavíkurkirkjugarði við Aðalgötu. Við munum minnast Brynjars Þórs á laugardaginn. Blessuð sé minning góðs drengs.

Matseðill og veitingar

Gunni Palli!Matseðill kvöldsins er ekki að verri endanum!
Hjólaskautakóngurinn og diskódansarinn Gunni Palli mun elda handa okkur glæsilegan kvöldverð.

Aðalréttur
Vorlamb á hjólaskautum með portvínssósu, fylltum kartöflum og villisveppum

Eftirréttur
Funheit diskódansandi Súkkulaðikaka með Grand mariner rjóma

Vinsamlegast látið okkur vita ef um einhverjar sérþarfir er að ræða, s.s ef þið hafið ofnæmi eða eruð grænmetisætur eða ef eitthvað annað er sem gæti dregið úr matarást viðkomandi á matseðlinum hér að ofan.

Ekki er ætlast til að fólk komið með eigin veitingar enda verður borðvín selt á góðu verði ásamt öðrum veigum sem eru nauðsynlegar á kvöldum sem þessum. Við hvetjum fólk til að vera búið að koma við í hraðbankanum og hafa íslenskar nýkrónur á takteinunum ef hægt er til að afgreiðslan gangi hraðar fyrir sig.

Hér er líka boðskortið góða fyrir þá sem vilja rifja upp upplýsingarnar á því.

Og svona til að uppfæra upplýsingar um skráningu þá eru stefnir í að við förum yfir 90 manns!


Gönguferð um æskuslóðir

GönguferðViljum minna fólk á að gönguferðin hefst stundvíslega kl. 14. Við hittumst í Keflavíkurkirkju, förum síðan í Barnaskólann (Myllubakkaskóla) og endum í Gagganum (Holtaskóla). Áætlum að göngunni sé lokið fyrir kl. 16:30.
Bendum þeim á sem ætla að hafa fyrirpartý að fara að plana það. Cool 
Munið að KK salurinn opnar kl. 19 og borðhald hefst stundvíslega kl. 20.
 
Hlökkum til að hitta ykkur!
Nefndin


Golfmótið

golf Viljum minna þá á sem ætla að vera með í ráshópi með fermingarsystkinum í Golfmótinu í Sandgerði kl. 10 á laugardaginn að skrá sig hjá Gunna Palla (farsímanúmerið hans er á boðskortinu). Ef þið ætlið að vera með þarf að skrá sig núna. Getið einnig sent póst á netfangið keflavik1965@gmail.com.

Ef þú ætlar að vera með þá verður þú að borga núna!

Í dag páskadag eru nákvæmlega 80 manns búnir að borga. Nefndin VEIT um nokkra sem ÆTLA að koma en eru ekki búnir að staðfesta þátttöku. Við viljum benda fólki á að ganga frá greiðslu STRAX ef það hefur hug á að vera með á þessari frábæru skemmtun. Kissing

Hvert er netfangið þitt?

Við í nefndinni biðjum ykkur að senda okkur netföngin ykkar á: keflavik1965@gmail.com
Hugmyndin er að safna netföngum hjá sem flestum í árgangnum svo eftirleikurinn verði auðveldari. Þess skal getið að netföngin verða ekki fengin þriðja aðila í hendur... nema auðvitað að alveg einstakt tilboð berist og við getum öll flutt til skattaparadísar fyrir greiðslunar og lifað á pina colada og kókóshnetum það sem eftir er ævinnar Sideways


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband