Afstæði tímans
5.3.2009 | 13:35
Það er alveg magnað hvað tíminn hefur verið okkur vingjarnlegur. Ekkert af okkur hefur elst hætis hót. Á sama tíma sér maður fólk úr öðrum árgöngum, jafnvel fólk yngra en okkur og signir sig í bak og fyrir yfir ólánsemi þeirra. Það virðast allir eldast í takt við tímann nema við.
Sérstaklega fannst mér þetta áberandi á fundi undirbúningsnefndar um daginn. Um leið og ég kom heim til Guðrúnar Birnu og settist í sófasettið, hallaði mér aftur og fór að hlusta á umræðurnar, var eins og ég væri kominn aftur í Gaggó. Nína enn sami íþróttagarpurinn. Gunni Palli enn að redda málunum. Dínóinn (Halli Dean) hélt um alla þræði, þekkti númerin hjá öllum - held að hann hafi hringt til San Fransisco á fundinum til að reyna að ná í Inga til að redda grafík á heimasíðuna.
Edda Rós með allt á hreinu og Guðrún Birna með listann, ekkert má gleymast, Tobba eins og sól í heiði, alltaf brosandi.
Mér leið strax eins og ég væri innan um bestu vini mína, þó ég hafi varla hitt nokkurt af félögum undirbúningsnefndarinnar síðan ég (og við öll) var sextán.
Þetta er einmitt ástæðan fyrir því hvað fermingarafmælin eru spes. Þetta og sú staðreynd að við höfum bara alls ekkert elst!
Sverrir Geirdal
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.